Leikhúsið

Netleikhúsið Herbergi 408 er fyrsta leikhús sinnar tegundar, stofnað af Hrafnhildi Hagalín og Steinunni Knútsdóttur. Herbergi 408 er lifandi leikhúsvettvangur og miðstöð tilrauna fyrir hvers kyns list sem tengist netmiðlum allt frá lifandi uppákomum til tilbúinna mynd- og hljóðverka. Leik- og myndverk leikhússins eru aðgengileg á leikhúsvefnum áhorfendum að kostnaðarlausu.

Netleikhúsið Herbergi 408 var stofnað vorið 2008 í Madríd. Það var opnað með samnefndu verki 31. oktbóber 2009 í Reykjavík.

 

Um stofnendur Herbergis 408

Hrafnhildur Hagalín lauk námi í  klassískum gítarleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og lagði seinna stund á frönsku og leikhúsfræði í Sorbonne-háskóla í París. Hún er höfundur fjögurra verka fyrir svið en einnig hefur hún skrifað fyrir útvarp, sjónvarp og dagblöð auk þýðinga. Meðal verka hennar eru “Ég er Meistarinn”, “Hægan Elektra”, “Norður” og   “Einfarar “- sex stutt útvarpsverk sérstaklega skrifuð fyrir nokkra af elstu leikurum landsins. Hrafnhildur hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a.  hlaut hún Leikskáldaverðlaun Norðurlanda fyrir “Ég er Meistarinn” en það hefur síðan verið þýtt á fjölmörg tungumál og sýnt víða um heim.  Þá var “Hægan Elektra” einnig tilnefnt til leikskáldaverðlauna Norðurlanda. Verk Hrafnhildar hafa komið út hjá Máli og menningu, Oxford University Press og Iperborea á Ítalíu.

Steinunn Knútsdóttir lauk BA námi í Guðfræði frá Háskóla Íslands og stundaði seinna leiklistarnám í Árósum í Danmörku. Þá lauk hún meistaranámi í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester, Englandi, og nam leikstjórn undir stjórn Jurij Alschits í Moskvu, Berlín og Bari, Ítalíu. Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhópum og sviðslistahópum í Danmörku og Englandi bæði sem leikari og leikstjóri. Hún hefur aðallega numið land í framsæknu leikhúsi, oft nátengt dansi og myndlist, og tekið þátt í mörgum rannsóknarverkefnum á sviði sviðslista. Þá hefur hún leikstýrt og stundað leiklistarkennslu hérlendis og erlendis.  Um árabil var Steinunn annar listrænna stjórnenda Lab Loka sem hefur staðið fyrir rannsóknum og tilraunum á sviði sviðslista. Hún var listrænn ráðunautur Borgarleikhússins um þriggja ára skeið og er stofnandi og listrænn stjórnandi Áhugaleikhúss atvinnumanna.
Steinunn er deildarforseti Leiklistar og dansdeildar Listaháskóla Íslands.