Herbergi 408 Um verkið

Herbergi 408 er farsakenndur þriller sem fjallar um hjónin Önnu og Einar og dóttur þeirra Sonju sem virðast lifa hamingjusömu lífi í smábæ úti á landi. En þegar náin vinkona fjölskyldunnar deyr á dularfullan hátt fara hlutirnir á verri veg, ýmislegt kemur í ljós um hina yfirborðsfáguðu fjölskyldu og af stað fer ógnvænleg atburðarás.

Opnunargjörningur leikhússins er yfirheyrsla lögreglunnar yfir persónum verksins vegna dauða fjölskylduvinkonunnar. Auk íslensks lögreglumanns hefur verið fenginn erlendur sérfræðingur til þess að taka þátt í yfirheyrslunni og talar hann beint frá Helsinki við persónur verksins. Þessi gjörningur er lokakaflinn í verkinu og verður tekinn upp og lagður á netið sem hluti af verkinu.

Herbergi 408 er annars vegar tilbúið hljóðverk, samsett af Hrafnhildi Hagalín og Steinunni Knútsdóttur, sem hægt er að hala niður í heild af heimasíðu leikhússins www.herbergi408.is og hins vegar interaktíft netverk þar sem netleikhúsgesturinn ræður för og framvindu verksins.

Handrit og leikstjórn: Hrafnhildur Hagalín og Steinunn Knútsdóttir
Tónlist og hljóðmynd: Kira Kira
Nethönnun, -forritun og teikningar: Þorlákur Lúðvíksson
Upptökur og hljóðblöndun: Sigurður Ingvar Þorvaldsson
Samsetning hljóðverks: Sigurður Ingvar Þorvaldsson, Steinunn Knútsdóttir og Hrafnhildur Hagalín.
Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Árni Pétur Guðjónsson og Harpa Arnardóttir.
Einnig koma fram: Áslaug Skúladóttir, Hrafnhildur Hagalín, Jussi Johnson, Ólöf Ingólfsdóttir, Hannes Ágúst Ólafsson, Steinunn Knútsdóttir, sölufólk í Víetnömsku búðinni, Suðurlandsbraut, tælensk kona á förnum vegi.

Þakkir: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Áslaug Skúladóttir, Eiríkur Smári Sigurðarson, Gestur Kolbeinn Pálmason, Guðmundur Guðmundsson, Hákon Már Oddsson og nemendur í Borgarholtssskóla, Hárgreiðslustofan Hársaga, Hótel Saga, Hugmyndahús háskólanna, Te og Kaffi (Hugmyndahúsi háskólanna), Listaháskólinn, Pétur Jónasson, Pilvi Porkola, Rec. Studio, Víetnamska búðin (Suðurlandsbraut), Þór Tulinius

Verkefnið er styrkt af Menntamálaráðuneytinu.

Um listamennina

Hrafnhildur Hagalín

 

 

 

 

 

 

 

Hrafnhildur Hagalín lauk námi í  klassískum gítarleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og lagði seinna stund á frönsku og leikhúsfræði í Sorbonne-háskóla í París. Hún er höfundur fjögurra verka fyrir svið en einnig hefur hún skrifað fyrir útvarp, sjónvarp og dagblöð auk þýðinga. Meðal verka hennar eru “Ég er Meistarinn”, “Hægan Elektra”, “Norður” og   “Einfarar “- sex stutt útvarpsverk sérstaklega skrifuð fyrir nokkra af elstu leikurum landsins. Hrafnhildur hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a.  hlaut hún Leikskáldaverðlaun Norðurlanda fyrir “Ég er Meistarinn” en það hefur síðan verið þýtt á fjölmörg tungumál og sýnt víða um heim.  Þá var “Hægan Elektra” einnig tilnefnt til leikskáldaverðlauna Norðurlanda. Verk Hrafnhildar hafa komið út hjá Máli og menningu, Oxford University Press og Iperborea á Ítalíu.  Herbergi 408-vefleikhús stofnaði hún ásamt Steinunni Knútsdóttur vorið 2008 í Madríd. Það var opnað með samnefndu verki 31. Október 2009.

Steinunn Knútsdóttir

Steinunn Knútsdóttir lauk BA námi í Guðfræði frá Háskóla Íslands og stundaði seinna leiklistarnám í Árósum í Danmörku. Þá lauk hún meistaranámi í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester, Englandi, og nam leikstjórn undir stjórn Jurij Alschits í Moskvu, Berlín og Bari, Ítalíu. Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhópum og sviðslistahópum í Danmörku og Englandi bæði sem leikari og leikstjóri. Hún hefur aðallega numið land í framsæknu leikhúsi, oft nátengt dansi og myndlist, og tekið þátt í mörgum rannsóknarverkefnum á sviði sviðslista. Þá hefur hún leikstýrt og stundað leiklistarkennslu hérlendis og erlendis en hún er stundakennari við leiklistardeild LHÍ.  Um árabil var Steinunn annar listrænna stjórnenda Lab Loka sem hefur staðið fyrir rannsóknum og tilraunum á sviði sviðslista. Hún var listrænn ráðunautur Borgarleikhússins um þriggja ára skeið.

Herbergi 408-vefleikhús stofnaði Steinunn ásamt Hrafnhildi Hagalín vorið 2008 í Madríd. Það var opnað með samnefndu verki 31. oktbóber 2009 í Reykjavík.

Kira Kira

 

 

 

 

 

 

 

Kristín Björk Kristjánsdóttir er Kira Kira. Tónlist hennar er óvenjulegt samspil draumkenndra rafhljóða og lifandi hljóðfæraleiks sem fundið hefur farveg í ýmis konar dansverkum, leikhúsi, kvikmyndum og á tónleikum. Hún er einn þriggja stofnenda Tilrauneldhússins sem var virkt afl í framsækinni tónlist á Íslandi á árunum 1999-2007 og stóð að fjölda merkilegra samstarfsverkefna og viðburða á Íslandi og víða um heim. Kira Kira hefur tekið þátt í verkefnum á vegum virtra menningarstofnana á borð við Contemporary Music Network í Englandi, Listahátíð í Reykjavík, Þjóðleikhúsið, Norska dansflokkinn og Arts Council England. Hún hefur gefið út tvær breiðskífur, Skottu og Our Map to the Monster Olympics hjá útgáfufyrirtækjunum Smekkleysu og Afterhours í Japan.

 

Þorlákur Lúðvíksson

Þorlákur Lúðvíksson lauk B. A. gráðu í  grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands 2002 og stofnaði þá strax, ásamt Lindu Rós Ragnarsdóttur, hönnunarstofuna Hringbrot sem hefur tekið að sér alls kyns verkefni: Bækur, vefi, plaköt, firmamerki, brúðkaup og margt fleira. Eitt aðaláhugmál Þorra er upplýsingahönnun, þ.e. framsetning á upplýsingum með myndrænum hætti, en útskriftarverkefni hans frá Listaháskólanum fjallaði um upplýsingahönnun og tengsl hönnunar og listar. Hringbrot hefur séð um grafíska hönnun fyrir mörg fyrirtæki í gegnum árin m.a. Perluna, Loftkastalann, Leiklistarsamband Íslands, Lab Loka, Hótel Flatey… (sjá nánar á hringbrot.is). Þorri hefur einnig haldið fyrirlestra um upplýsingahönnun fyrir verkfræðinema í Háskóla Íslands.

Sigurður Ingvar Þorvaldsson

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður Ingvar Þorvaldsson hefur verið sjálfstætt starfandi hljóðmaður, hljóðhönnuður og upptökustjóri sl. sjö ár. Hann hefur starfað sem hljóðmaður á fjölda tónleika en einnig hefur hann stjórnað upptökum á tónlist og hannað hljóð fyrir stuttmyndir og sjónvarpsþætti. Sigurður Ingvar starfaði sem hljóðmaður hjá Stúdíó Sýrlandi frá 2005-2009 við hljóðsetningu á teiknimyndum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum og þá hefur hann unnið sem “live” hljóðmaður á fjölda tónleika og viðburða s.s. Iceland Airwaves og stjórnað upptökum, hljóðblandað og eða unnið sem tæknimaður fyrir tónlistarmenn á borð við Cosmic Call, Nögl, Weapons, Mínus, Barða Jóhannsson, Skítamóral og fl.

Árni Pétur Guðjónsson

 

 

 

 

 

 

 

Árni Pétur Guðjónsson er menntaður leikari frá Leiklistarskóla Íslands og Ríkisleiklistarskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hefur leikið mikinn fjölda hlutverka hérlendis á sviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi og þá starfaði hann með norræna leikhópnum Kröku í Danmörku 1976 -1982. Árni var fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1989-2002 og hefur starfað með fjölmörgum frjálsum leikhópum m.a. Alþýðuleikhúsinu, Frú Emilíu, Lab Loka, Þýbýlju,  Áhugaleikhúsi Atvinnumanna og Vesturporti en með þeim ferðaðist hann víða um heim í sýningum á Rómeó og Júlíu og Woyzek. Árni Pétur er handhafi Freskabikarsins í leikhússporti.

Harpa Arnardóttir

 

 

 

 

 

 

 

Harpa Arnardóttir stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-1986 og útskifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1990. Síðan hefur hún leikið fjölda hlutverka á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún lék um árabil  hjá Leikfélagi Reykjavíkur og þá hefur hún starfað með ýmsum sjálfstæðum leikhópum s.s. Frú Emilíu, Hafnarfjarðarleikhúsinu, Vesturporti og Áhugaleikhúsi Atvinnumanna.  Harpa er áhugamanneskja um íslensk leikverk en hún hefur tekið þátt í tuttugu og tveimur frumuppfærslum á nýjum íslenskum verkum. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. verið fimm sinnum tilnefnd til Grímunnar fyrir leik í aðalhlutverki en hún hlaut  Grímuverðlaunin árið 2009 fyrir besta leik í aðalhlutverki í Steinar í Djúpinu.

Aðalbjörg Árnadóttir

 

 

 

 

 

 

 

Aðalbjörg Árnadóttir útskrifaðist árið 2005 með BFA í leiklist frá Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Hún lék hjá Leikfélagi Reykjavíkur 2007-2008 í uppsetningum á Gosa, Gítarleikurunum og Líki í óskilum. Einnig hefur hún m.a. leikið í Gyðjan í vélinni, Orbis terra,  Grease , Footloose og  verðlaunastuttmyndinni  Góðir Gestir.  Aðalbjörg er einnig  meðlimur í leikhópunum 16 elskendur og  Áhugaleikhúsi atvinnumanna.