Herbergi 408 Umsagnir

Víðsjá, mánudaginn 16. nóvember

Eins og hugtakið leikhús bendir til þá er reiknað með að það sé  iðkað í byggingu og sækir leiklistargjörningurinn jafnframt sérstöðu sína til þeirrar staðreyndar. Leiklistin er list augnabliksins og nýtur hinna milliliðalausu samskipta milli leikara og áhorfenda. Nú getur íslenskt leikhúsáhugafólk hins vegar stundað áhugamál sitt heima hjá sér, það eina sem þarf er nettenging og tölva.  Fyrsta íslenska netleikhúsið hefur nefnilega litið dagsins ljós. Netleikhúsið kallast Herbergi 408 og er því ætlað að vera tilraunavettvangur á sviði leiklistar og raunar hvers kyns lista sem tengist netmiðlum – á netinu má jú miðla uppákomum og ýmsu sjón- og hljóðrænu efni.

Stofnendur leikhússins eru þær Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir leikskáld og Steinunn Knútsdóttir leikstjóri en þær eru jafnframt höfundar fyrsta verks leikhússins sem ber einnig nafn þess, Herbergi 408. Hrafnhildur hefur skrifað nokkur verk fyrir svið og mættu þau gjarnan vera fleiri en síðustu vikur hefur leikritaröðin Einfarar, sem hún skrifaði fyrir suma af elstu leikurum okkar hljómað í Útvarpsleikhúsi Ríkisútvarpsins. Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhópum, nú síðast leikstýrði hún þriðja verkinu í fimm verka röð Ódauðlegra verka um mannlegt eðli sem Áhugaleikhús atvinnu manna frumflutti á leiklistarhátíðinni Lokal í haust.

Leikritið Herbergi 408 er skilgreint sem farsakenndur þriller. Það fjallar um hjónin Önnu og Einar sem búa í þorpi fyrir vestan þar sem þau braska og bralla ýmislegt. Einar flytur inn lítið skilgreindan heilsuvarning en villist af beinu brautinni eins og svo margir, hann flækist í peningamisferli og veit ekki alveg hvernig hann á að koma sér út úr því. Anna er hins vegar leigubílstjóri og það ekki alveg af hefðbundna taginu. Hugtakið “góður leigubíll” fær alveg nýja merkingu í meðförum hennar. Eins er sagt frá Sonju dóttur þeirra sem er djörf og djúsí ungfrú Vesturland en hún er stödd í París þar sem hún elur á smástirnisdraumum Séð og heyrt-stúlkunnar og lendir í ýmsum vandræðum á því ferðalagi. Allt fer svo á hvolf í lífi fjölskyldunnar þegar náin vinkona þeirra deyr og var nóg af vandamálunum fyrir.

Þegar leikhúsgestur fer inn á heimsíðu netleikhússins mætir honum hurð sem hann getur opnað og þá mætir honum kort  sem minnir einna helst á leiðarkort strætisvagna eða lesta. Hver persóna hefur leiðarlínu fyrir ferðalag sitt í verkinu og geta leikhúsgestir ýtt á hina ýmsu áfangastaði kortsins á leiðinni sem opnast þeim í framhaldinu. Á hverjum áfangastað er hluti verksins spilaður og teikning sem vísar til hans birtist. Þannig geta leikhúsgestir stjórnað ferðinni með gagnvirkum hætti, spilað atriðin í þeirri röð sem þeir kjósa og þannig beinlínis búið til sína eigin framvindu. Hugmyndin eins og hún birtist á þessu korti hvetur leikhúsgestinn beinlínis til þess að hrista upp í hugmyndinni um línulaga atburðarás og sjá hlutina þannig í nýju ljósi. Einnig er hægt að hlaða verkinu niður í heild sinni og þá er það flutt í réttri röð ef svo má segja, og ferja höfundar hlustendur í gegnum söguna með tengingum og athugasemdum. Sú miðlun er auðvitað hefðbundnari, þá hlustar gesturinn á verkið eins og útvarpsverk.

Það er auðvitað of takmarkandi að skilgreina hljóðverk sem útvarpsleikrit enda getur hljóðmiðlun verið með ýmsum hætti eins og kemur berlega í ljós hér. Verkið er bersýnilega skrifað með báða formmöguleika í huga og er býsna skemmtilegt. Það tekst ágætlega að sameina farsann og spennutryllinn, textinn er oft fyndinn en leiknálgunin, hljóðmyndin og hljóðvinnslan veldur töluverðum óhugnaði. Þetta verk er svört lýsing á samfélagi siðleysis, spillingar og yfirborðsmennsku sem sumir vilja nú helst gleyma en aðrir vilja endurreisa með nýjum formerkjum og gildum.

Þau Árni Pétur Guðjónsson og Harpa Arnardóttir fara með hlutverk hjónanna en Aðalbjörg Árnadóttir leikur dótturina Sonju. Leikurinn er vandaður og vel útfærður tæknilega, kunnuglegar típurnar framkallast ágætlega í verkinu og þróun þeirra er nokkuð sannfærandi. Tónlist og hljóðmynd Kiru Kiru á einnig stóran þátt í þessu verki og gerir mikið til að magna upp lúmskan óhugnaðinn í verkinu. Hlutverk höfunda sem sögumanna er líka býsna vel leyst, þeir eru langt frá því að vera áreiðanlegir og spyrja í raun fleiri spurninga en þeir svara sem hentar forminu sem hér liggur til grundvallar, ágætlega.

Þessi tilraun með vettvang netleikhúss er þannig að mörgu leyti vel heppnuð og áhugavekjandi en eftir situr þó sú tilfinnimg að nýta mætti miðilinn mun betur. Það má svo sannarlega velta því fyrir sér af hverju aðstandendur leikhússins hafa ekki til dæmis farið lengra í útfærslu á sjónrænu hliðinni en það hlýtur einmitt að vera einn af kostunum við internetið sem vettvang fyrir leiklist að nota hljóð og mynd á skapandi og gagnvirkan hátt. Þegar leikhúsgesturinn staldrar við á atburðarásarkortinu og opnar einn af gluggunum þar blasir við býsna einföld línuteikning sem túlkar atburðina sem fyrir eyru ber á viðkomandi stað. Þessar teikningar eru eftir Þorlák Lúðvíksson hönnuð sem einnig sér um hönnun síðunnar í heild sinni en teikningarnar gera lítið annað en myndskreyta hljóðið með frekar óafgerandi hætti. Þessar skreytingar bæta litlu við upplifun leihúsgestsins, þær undirstrika hvorki óhugnaðinn né húmorinn í uppfærslunni. Það er nefnilega fátt óhugnanlegra en að stíga inn í ókunnugt herbergi og hér opnar leikúsgesturinn hvert ókunnuga herbergið á fætur öðru. Það hefði svo gjarnan mátt gera fleiri tilraunir með það sem birtist þegar hurðin er opnuð, gefa þáttakandanum eitthvað flóknara til að glíma við. Þegar mynd og hljóð mætast hljóta möguleikarnir jú að vera óendanlegir.

Ég vænti þess að frekari tilraunir með leikhúsformið á vettvangi internetsins muni leysa úr þessum vanda. Það má einnig sjá fyrir sér að internetið verði notað til beinna útsendinga á leiklistargjörningum og var það reyndar gert í opnunagjörningi þessa verks en hann upplifði ég því miður ekki. Og þó að nokkuð vanti upp á sjónrænu útfærsluna er Herbergi 408 ágætlega unnið hljóðverk og útfærslan á netinu spennandi viðbót við frásagnarmöguleika leikhússins og eiga aðstandendur verkefnisins væntanlega eftir að nýta sér þessa möguleika enn frekar í vinnu sinni. Það er því alveg hægt að mæla með því að hlustendur taki sig til eitthvert kvöldið, kveiki kannski á kertum í drunganum, hiti sér tesopa og reki nefið inn um sýndargáttina á Herbergi 408. Sýninguna má nálgast á Herbergi408.is og hennar getur þú notið hlustandi góður þegar þér sýnist. Láttu það endilega eftir þér, það kostar nefnilega ekki neitt.

Þorgerður E. Sigurðardóttir